Fundargerðir

Stofnfundargerð Skógræktarfélags Villingaholtshrepps

Þann 8. Apríl 1951 var haldin fyrsti fundur í skólahúsi hreppsins í þeim tilgangi að stofna Skóræktarfélag Villingaholtshrepps. Máls hefjandi var Óli Kr. Guðbrandsson skólastjóri nefndi hann sem fundarstjóra Björn Einarsson og sem ritara Árna Þórarinsson.

Mættir voru á fundinn 17 menn. Óli Kr. Guðbrandsson lýsti undirbúningi þessa máls og las upp uppkast að lögum fyrir félagið, sem fundarstjóri las síðan upp lið fyrir lið og voru þau rædd nokkuð en síðan voru þau samþykkt með öllum greiddum atkvæðum.

Næst á dagskrá voru stjórnarkosningar. Kjósa átti 3 menn í stjórn fóru kosningar þannig að formaður var kosin Óli Kr. Guðbrandsson með 16 atkvæði. Gjaldkeri Reynir Þórarinsson með 7 atkvæði. Ritari Árni Þórarinsson með 14 atkvæði. Varamenn í stjórn eru: Haraldur Einarsson með 5 atkvæði. Björn Einarsson með 3 atkvæði. Hafsteinn Þorvaldsson með 3 atkvæði. Sem endurskoðendur voru kosnir. Sigurjón Kristjánsson með 8 atkvæði. Kristján Jónsson með 5 atkvæði. Til vara Sigurður Gíslason með 4 atkvæði.

Þar næst voru frjálsar umræður og tóku þeir fyrstir til máls Einar Kristjánsson og Reynir Þórarinsson og töldu sérstaklega þörf á upplýsingum viðvíkjandi gróðursetningu trjáplatna því að mistök við gróðursetningu og hirðingu vildu oft rýra bæði árangur og áhuga sem í byrjun væri á starfinu.
Sigurður Grétarsson lagði til að skólabörnum væri kennd gróðursetning einn dag á vorinu og væri þá heppilegast að sú kennsla færi fram á skólalóðinni.
Óli Kr. Guðbrandsson sagði nokkur orð viðvíkjandi þessu og taldi hann það ekki tímabært eins og sækir stæðu, þar sem lóðin væri ógirt enn þá.
Hafsteinn Þorvaldsson tók til máls og þakkaði skólastjóra fyrir þá vinnu og þann áhuga sem hann hefir sýnt þessum málum.

Þessi tillaga frá Óla Kr. Guðbrandssyni og Birni Einarssyni. Stofnfundur Skógræktarfélags Villingaholtshrepps skorar á skólanefnd hreppsins að koma sem fyrst upp girðingu um skólalandið og láta skipuleggja það og óskar þá skóræktarfélagið eftir að ætlað verði land til skógræktar á vegum skólans og heitir félagið öllum þeim stuðningi sem það má veita við þær framkvæmdir.
Tillaga var samþykkt í einu hljóði.

Fleira ekki tekið fyrir, fundi slitið.

53 einstaklingar gengu í félagið á stofnfundi þess.